31.10.2008 | 09:46
Snjór og kalt...
Mamma fór heim þann 25. okt og söknum við hennar sárt. Hún sat hér og prjónaði út í eitt á milli þess sem hún fékk sér langa göngutúra. Hún var með einn dag á elgsveiðar en því miður var ekkert dýr fellt þann daginn. Síðustu helgina sem hún var hér skoðuðum við Jotunhoggi en það er rétt sunnan við Tynset. Jotunhoggi er 240 metra djúpt gil myndað af jökli og vatni, við steiktum pylsur yfir eldi og gengum svo niður í gilið, snarbrött hlíð og komust allir niður og upp aftur þrátt fyrir lofthræðslu sem hrjáði ónefnda.
Nú hefur vetur konungur bankað upp á hér í Elverum. Vorum í gær í úlpuleiðangri en Svavar hefur ekki viljað nota vetrarúlpu í mörg ár, en nú verður ekki hjá því komist að ganga í hlýrri úlpu. Ég hef notað gönguskóna mína sem vetrarskó síðustu árin, en þeir eru ekki nógu hlýir, komin í bomsur sem hafa þægindaþol -32 gráður.
Í dag er OD-dagur (Operasjon Dagsverk) í skólanum hjá Svavari, hann er sem sagt ekki í skólanum í dag heldur að vinna. Peningarnir verða síðan notaðir til að styrkja nám í Afríku, Asíu og S-Ameríku. Hann er að vinna með Ola fyrir Skogforverket í Hamar, þeir eru út í skógi við trjámælingar.
Svavar er komin á fullt í handboltanum, var hann að keppa með liðinu sínu síðastliðinn miðvikudag á móti eldri árgangi, G-95 á móti G-94. Þeir töpuðu leiknum en það var þó nokkur munur á styrk og stærð strákana.
P.s. Gengur hálfilla að setja inn myndir, kemur vonandi
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.10.2008 | 09:50
..... og veiðar!!
Hreindýraveiðar hafa ekki gengið sem skildi en það er ekki öll von úti ennþá, enn nokkrir dagar eftir af veiðitímabilinu. Þ.e.a.s ef það verður tími því nú eru elgsveiðar komnar á fullt. Svavar fór með Ola á sunnudaginn, fyrsta daginn sem mátti veiða og skaut Ola ungkú þann daginn. Svavar stóð sig mjög vel og fannst honum ekki mikið mál að taka þátt í að flá dýrið. Verst að myndavélin gleymdist. Ég fór svo með á mánudaginn en þá var annar í veiðihópnum sem skaut uxa. Þetta eru flott dýr og synd að horfa á þau feld en þetta er matur og svo verður að halda stofninum í skefjum. Maren eldri dóttir Ola fór svo með á veiðar í gær, hún var mjög dugleg og gengu þau mikið, en Ola er með tvo elgshunda, Veiða er bandhundur og Kaura er laushundur. Þannig að það lendir oftast á honum að ganga um svæðið og finna spor en það var ekki mikið vandamál fyrir Maren. Í veiðihópurinn sem Ola er í telur 7 menn og mega þeir veiða í allt 6-7 dýr.
Mamma er hér í heimsókn og ætlar hún að stoppa í þrjár vikur. Hún er búin að fá nokkra daga með fallegu haustveðri. Það hefur verið frost hér nokkrar nætur, það er þó nokkur munur á Elverum og Ási hvað hita og veðurfar varðar, það er þurrara hér uppfrá. Annars finn ég mest fyrir því hvað við erum í mikið betra húsnæði hér, við vorum í steinhúsi á Ási en í tréhúsi hér og er það miklu hlýrra og svo erum við líka með ofn til að hita upp.
Ég kem til með að setja inn myndir frá Elgsveiðunum næstu daga.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2008 | 09:03
Smá fréttir
Síðastliðin mánudag var gerð tilraun þrjú til að ná í hreindýr. Fórum við Ola að heiman kl. 3.00 að nóttu og vorum komin í fjallið í birtingu kl. 7.00. Fengu yndislegt veður og haustlitirnir komnir í fjallið, en sáum ekki eitt einasta hreindýr þó svo að við fínkembdum svæðið. Við sáum mjög mikið af fjallarjúpu sem er að ég held eins og íslenska rjúpan og svo sáum við elgskú með kálf. Veit ekki hvað í ósköpunum hún var að gera á snjófjallinu, finnur kannski á sér að elgsveiðarnar séu að byrja. Við komum í bílinn um kl. 20.00 þegar sólin var að setjast og vorum þá búin að ganga 25-30 kílómetra.
Síðastliðinn sunnudag komu Øyvind, Sigrún og sonur þeirra Anton í mat. Sigrún Sigurjónsdóttir er frá Skógum. Þau búa rétt við Hamar og eru þau Øyvind og Sigrún samstúdentar Ola úr skógfræði frá Ási. Buðum við upp á steiktan saltfisk að hætti Sigga Hall og marenseftirrétt.
Hér er búið að vera fínt veður en komið haustkul í loftið. Hitastigið síðustu morgna hefur verið í kringum 5°C en fer upp í svona 17°C á daginn. En nú erum við svo heppin að vera með viðarofn þannig að við kyndum upp í honum á morgnana og svo tekur sólin við þegar kulnar í ofninum. Búin að ná í hellings við fyrir veturinn og verður síðasta hlassið sótt seinni partinn, hef reyndar ekki mikið pláss hér þannig að viðurinn verður upp í Åsheim heima hjá Ola. Svo er bara spurningin er ég umhverfisvæn eða ekki???? Sjálfsagt margar meiningar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2008 | 10:25
Hreindýraveiðarnar.....
...... ganga fremur illa þessa dagana. Óhagstæður vindur veldur því að við sjáum varla dýr Ola hefur aldrei upplifað svona ástand áður en hann hefur farið á hreindýraveiðar í 25 ár. Það eru búnar að vera sunnanáttir í langan tíma en okkur vantar norðan átt í þó ekki væri nema einn dag til að fá dýrin inn á veiðisvæðin okkar, þau liggja inní skógarkantinum núna. Við erum með tvö dýr á sitthvoru svæðinu. Hér er þetta þannig að landinu er skipt í svæði og svo má bara veiða ákveðið magn dýra inn á því svæði. Við erum að veiða inn á svæði við Dølbekken suðvestur af Tynset og Myklebysjøen sem er í suður frá Koppang. Um síðustu mánaðarmót fórum við, ég, Ola og Svavar norður að Dølbekken sáum einn flokk sem komst inn á næsta svæði án þess að við kæmumst í skotfæri. Og síðasta sunnudag reyndum við Ola við Mykelbysjøen, gengum langt ca. 20 km í mýri og erfiðu landslagi en fengum frábært veður. Sáum ekki eitt hreindýr bara elgi en elgsveiðarnar byrja um mánaðarmót september-október. Nú er bara að krossa fingurna og vonast eftir norðanátt.
Nýjar myndir í möppu júlí, ágúst, september og Sjóræningjahúsið
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.9.2008 | 10:54
Betra seint en aldrei
Langur tími síðan að ég skrifaði fréttir af okkur og margt sem hefur borið á daga okkar síðan þá. Er of langt að telja allt saman upp en í fljótu bragði þá fluttum við frá Ási til Elverum í lok júní. Fengum að vísu ekki íbúð í Elverum fyrr en 1. ágúst þannig að við flutum okkar hafurtask inn í skógin til Ola. Þar vorum við í góðu yfirlæti þar til við Svavar flugum heim til Íslands um miðjan júlí. Svavar fór austur í föðurhús en ég stóð, ásamt hjálp góðra vina og fjölskyldu, í ströngu við að umpakka dótinu mínu á Íslandi til að flytja hluta af því út til Noregs. Svo þurfti ég að skreppa vestur á Patró út af lokaverkefninu mínu og var ég mjög heppin með veður og hvet ég alla sem leggja leið sína vestur á land að kíkja á Sjóræningjasafnið á Patreksfirði. Ola kom svo til Íslands viku seinna og keyrðum við austur á Höfn ásamt mömmu. Heimsóknum Elínborgu ömmu, Guðrúnu Ósk og fjölskyldu, ásamt því að hitta á nokkra vini og ættingja. Heimsóknum svo Hrefnu, Heimir og börn í sumarbústaðinn í Grímsnesi. Alltof stutt stopp á landinu fagra en fengum frábært veður og stoppum lengur næst. Við Ola komu svo til Noregs 29. júní og ég fékk íbúðina þann 1. ágúst og fór talsverður tími í að koma öllu í rétt horf.
18.6.2008 | 09:01
Flutningar og fleira ......!!!!
Þá er orðið frekar fámennt á heimilinu. Áslaugarnar, þ.e.a.s. Áslaug tengdamamma og Áslaug Dóra systurdóttir Begga, fóru héðan á sunnudaginn áleiðis til Köben. Það var frábært að fá þær í heimsókn. Svo fór hún Þórhildur í gærkvöldi ánægð eftir rúmlega tveggja vikna dvöl hjá mömmu.
En það er svo sem nóg að gera þannig að okkur leiðist ekkert ægilega. Byrjuð að pakka fyrir flutning. Við erum sem sagt að flytja og kemur sjálfsagt engum á óvart, Oddný flökkukerling.
Í síðustu viku hjólaði Svavar ásamt bekkjarfélögum til Lund við Oslófjörðinn og gistu þar eina nótt. Við kvennagengið fórum svo og hittum hann og bekkjarfélagna ásamt öðrum foreldrum, það var grillað og farið í leiki. Svo yfirgáfu foreldrar og aðrir gestir svæðið um hálf níu. Svavar er en í skólanum, síðasta vikan og síðasta vikan í Åsgårdskole og byrjar hann í ungdomsskole í Elverum næsta haust. Við erum búin að leigja fína íbúð í nýju húsi á góðum stað í Elverum. Stutt fyrir Svavar í skólann og íþróttahúsið, hann er ákveðin í að æfa handbolta með Elverum, þar er handboltinn mjög sterkur og eru að minnstakosti þrír íslendingar að spila með meistaraflokknum, þeir eru út um allt þessir íslendingar heheh.....
Við flytjum hér út um næstu mánaðarmót en fáum ekki íbúðina í Elverum fyrr en 1. ágúst. Í millitíðinni flytjum við með allt okkar hafurtask inn í skóginn til Ola. En hann býr í 22 km fjarlægð norðuraustur af Elverum. Svo komum við heim á klakann í frí þann 13. júlí jibbí....
Ég er aðeins byrjuð að líta í kringum mig með vinnu en það verður aldrei fyrr en seinnipartinn í haust sem ég fer að vinna. Það verður setið við lokaverkefnið í ágúst, sept og okt.
Um helgina erum við Svavar að fara ásamt Ola og stelpunum hans upp til Tynset. Bróðir Ola er fjárbóndi í Avdal rétt sunnan við Tynset og ætlum við að leysa hann af yfir helgina. Svavar er alveg rosalega spenntur, svoddan sveitakall strákurinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2008 | 13:44
Fjallaferð
Á fimmtudaginn fengum við góða gesti í heimsókn, þau Guðrún og Valdimar komu við en þau eru búin að vera við nám í Svíþjóð og Danmörku. Eru nú að flytja heim á klakann, sigla frá Bergen heim. Við Hrafnhildum gengum með þeim um skólasvæðið og gáfum þeim svo að borða á eftir.
Um helgina fórum við fjölskyldan til fjalla ásamt Ola og dætrum hans. Á föstudaginn keyrðum heim til Ola, Maren og Linnea en þau eiga heima inn í skógi á býli sem heitir Åsheimar, 22 km norðaustur af Elverum. Hitastigið var 33°C og var nánast ólíft í bílnum en með því að drekka nóg vatn og hafa alla glugga opna hafðist það af, við erum nefnilega ekki með loftkælingu í bílnum.
Við gistum á Åsheimum aðfaranótt laugardagsins, á laugardeginum héldum við hersingin þ.e.a.s. ég ,krakkarnir, Ola, stelpurnar og tveir elgshundar, Veiða og Kaura, norður til Koppang og þaðan í vestur inn á svæði sem heitir Storelvdal. Það var meiri snjór inn á fjallinu en við gerðum ráð fyrir þannig að áætlun var breitt og var tjöldum slegið upp við leið sem heitir Vinjevegen. Þó svo að við værum komin hátt upp var hitastigið fínt og þegar að við vöknuðum á sunnudagsmorgun var komin brakandi hiti og gjörsamlega ólíft í tjöldunum. Á sunnudagsmorgun tókum við saman og viðruðum svo liðið á eftir. Frá náttstað var haldið niður að Trytjørn, reyndum þar fyrir okkur með veiðistangir og prófuðum nýju Elizu, kajakinn minn. Og nú er bara eftir að prófa hana Elizu á ólgusjó.
Nú bíðum við bara spennt eftir Áslaugunum En Áslaug tengdamamma og Áslaug systurdóttir Begga koma á miðvikudag. Þær verða hjá okkur fram á sunnudag.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2008 | 07:29
Þórhildur kemur jibbí....
Þórhildur er að koma á mánudaginn hingað út í heimsókn og ætlar hún að vera hjá okkur til 17. júní. Ég hef ekki séð stelpuna mína síðan í október á síðasta ári og verður frábært að fá hana hingað í nokkra daga.
Svavar ljómaði eins og sól í heiði og hljóp hér um svæðið með fréttirnar. Þetta var bara ákveðið í gær svo að það er stuttur fyrirvari.
Annars ætlum við á ströndina í Drøbak í dag, ætlum við að grilla og vonandi skella okkur í sjóinn. Þetta veður einskonar kveðjuhóf þar sem að fólk er að tínast í burtu.
Ég er reyndar bíllaus þar sem að tímareimin í bílnum mínum fór. Frekar súrt þar sem að ég lét skipta um tímareim áður en ég kom út og hef ekki keyrt nema um 20 þúsund kílómetra á reiminni. En ég var víst heppin að ekki fór verr.
Auk okkar Svavars verða á ströndinni:
Lilja fer 5. júní hún er búin að skila af sér lokaverkefninu stelpan, hún þarf reyndar að koma aftur um 20. júní til að verja verkefnið.
Gunna er búin með masterinn og byrjuð í doktorsnámi þannig að hún verður hér næstu árinn, verður reyndar að vinna að verkefnum í Danmörku næsta haust.
Thea er líka búin að skila og er að verja í næstu viku eftir það fer hún til Stavanger og hittir hann Helga sinn. En Helgi er búin að vera að vinna sem landslagarkitekt í Stavanger síðan um áramót.
Hrafnhildur fer ekki heim fyrr en í lok júní en kærastinn hennar hann Ragnar er að fara heim á sunnudaginn. En þau koma aftur út eftir sumarfrí og eiga eftir að vera hér næstu árinn.
Dung sem hefur leigt með Lilju í vetur er líka að klára og er stelpan búin að fá vinnu í Bergen.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2008 | 07:28
Minning
Í dag eru tvö ár frá því að hann Beggi minn yfirgaf þetta líf. Þó svo að tíminn sem við fengum saman væri allt of stuttur þá var hann góður og eru það margar góðar minningar sem koma upp í hugann. Tíminn er svo afstæður, stundum flýgur hann og stundum stoppar hann og hefur það verið þannig síðustu tvö árinn hjá mér og eflaust fleirum. Nú er ég á lokasprettinum í náminu sem Beggi hvatti mig í, og er það alveg á hreinu að ég hefði aldrei komist í gegnum þetta án hans. Hann gaf mér sjálfstraust og trú á sjálfan mig, þó svo að hann hafi horfið á braut þá er hann hvatning mín og verður það lífið út. Er ég svo þaklát fyrir allt sem hann gaf mér.
Þessi texti er úr smiðju Megasar en hann var í miklu uppáhaldi hjá Begga.
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
en ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer
en ég vona bara hann hugsi soldið hlýlega til mín
og leiði mig upp á endanum til þín
Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn
í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð
Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn
og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli
því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.
Já og andlitið þitt málað hve ég man það alltaf skýrt
augnlínur og bleikar varir brosið svo hýrt
jú ég veit vel að ókeypis er allt það sem er best
en svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst
Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér
og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á
en ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá
Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær
ég man þig þegar augu mín eru opin hverja stund
en þegar ég nú legg þau aftur fer ég á þinn fund
Megas
9.5.2008 | 07:59
Verð bara að skrifa .....
Það er allt gott að frétta hér, ég er að skila síðasta verkefninu mínu núna 16. maí og er þá bara mastersverkefnið eftir og reikna ég með að klára það í haust.
Nú er fótboltatímabilið hjá Svavari komið á fullt og hafa þeir keppt tvo leiki. Honum gengur vel í skólanum, síðustu tvær vikurnar hefur hann farið á stuttermabol og stuttum buxum í skólann. Sem sagt komið brakandi sumar hjá okkur.
Um síðustu helgi voru Ola, Maren og Linnea hjá okkur og gerðum við okkur m.a. ferð inn í Osló í bongóblíðu.
Skrifa meira þegar ég er búin að skila af mér verkefninu.
Nýjar myndir og ein af Svavari með háárrr.....
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)