31.5.2007 | 10:41
Norskir vegir og umferðaöryggi
Hef smá reynslu af vegum í Noregi, en ég á eftir að keyra þessa, skoðið þessa. Þó ótrúlegt megi virðast er Noregur eitt af þeim löndum þar sem öryggi á vegum er hvað mest. Svo nú er bara að drífa sig með Norrænu til Bergen, hver veit nema að ég eigi svo heitt á könnunni.
Kíkið inn á Norska tútistavegi.
30.5.2007 | 22:54
Berlín er spennandi borg
21. maí síðastliðinn fór ég í 3ja daga námsferð til Berlínar. Hópurinn taldi 22 með kennurum. Við gistum á The Sunflower Hostel sem var upplifun út af fyrir sig, hreint og snyrtilegt en pínu öðruvísi. Við leigðum hjól og hjóluðum um borgina þvera og endilanga, frábær ferðamáti. Hitastigið var í um 30° C á meðan að við vorum í Berlín og fann maður ansi mikið fyrir hitanum á hjólunum.
Þó svo að um átján ár séu frá því að múrinn féll upplifir maður mjög sterk muninn á austur- og vestur Berlín. Það er búið að byggja svakalega mikið upp og eru en miklar framkvæmdir í austurhlutanum. Þeir eru flinkir við að vernda það sem er heillegt og byggja nýtt við það gamla. Og jafnvel að setja listaverk inn í gamlar byggingar en sitt sýnist hverjum um það, en Berlín er jú Mekka listamanna.
Það er magnað að skoða svæðið við nýju Hautbanhof (brautarstöðina) það er allt í svo stórum skala en þeir gefa þá byggingunum jafnframt rými þannig að maður upplifir þær ekki sem yfirþyrmandi. Og svæðið við Alexander-platz er bæði gaman að skoða byggingarhönnun og ekki síður landlagsarkitektúr. Mæli með þessari síðu ef þið eruð á leið til Berlínar http://www.aviewoncities.com/berlin/berlinattractions.htm
Vinir og fjölskylda | Breytt 31.5.2007 kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2007 | 13:05
Minning um ástkærann eiginmann
Tíminn er svo afstæður, í dag er ár frá því að Beggi dó, mér finnst svo stutt síðan að hann keyrði mig í vinnunna, kvaddi mig og fór svo upp í Akrafjall til að fá sér göngutúr. En jafnframt svo langt síðan að ég hélt honum í faðmi mínum. Sumt skilur maður ekki og er ekki ætlað að skilja. Ég skil það ekki í dag hvernig ég fór að því að flytja með fjölskylduna út til Noregs síðastliðið sumar og takast á við ný verkefni hér. En einhverstaðar hefur maður fengið styrk til að komast í gegnum þetta allt saman. Og það hefur svo sannarlega verið ómetanlegt að eiga fjölskyldu og vini sem hafa stutt við bakið á okkur á erfiðum tímum.
Mér finnst ég vera ótrúlega heppinn kona, að hafa kynnst Begga, hafa átt hann fyrir eiginmann, elskhuga, vin, göngufélaga og sálufélaga, verð ég því eilíflega þakklát. Við eigum sko Begga eins og Svavar komst svo skemmtilega að orði rétt eftir að við byrjuðum að búa saman. Svavar var fimm ára og langaði svo óskaplega mikið í eitthvað sem móðirin hafði ekki efni á að kaupa "Já, en Beggi á peninga" sagði hann. Ég reyndi að koma honum í skilning um að það væru hans peningar ekki okkar, þá klingdi hann út með því að segja "Já, en við eigum Begga". Og er það svo sannarlega svoleiðis, við áttum Begga og eigum áfram í minningunni.
Ég veit að hugur margar er hjá Begga í dag og mörg tár eiga eftir að falla en við erum svo heppin að eiga margar góðar minningar sem ylja okkur og gefa okkur og ekki síður honum styrk. Ég er samfærð um að allar góðar hugsanir skila sér.
Eftir að Beggi lést kom nágranni minn og færði mér ljóðabók eftir systur hans. Hún lést þann 5. apríl 2006 eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Eitt af ljóðunum úr bókinni.
Og ég nem
boðskap hjarta míns.
Ást sem er einlæg
ást sem er umhyggjusöm
ást sem gefur
og þiggur
án skilyrða
er ást
sem lifir dauðann.
Rut Gunnarsdóttir
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2007 | 08:39
Þjóðhátíðadagurinn 17. maí
Það fór ekki framhjá neinum í Noregi að þjóðhátíðardagurinn var í gær, dagurinn rann upp bjartur og fagur og strax um níu í gærmorgun var maður farin að sjá krakka hlaupandi hér úti sveiflandi fánum og litlar stelpur í þjóðbúningum.
Svavar átti að vera mætur til að taka þátt í barnetoget fyrir tíu, jú ég vissi að þetta væri einhverskonar skrúðganga, en hér fá ekki allir að taka þátt í skrúðgöngum. Ég, Bebba og Óskar Óðinn voru svo komin út fyrir tíu og röltum okkur niður í bæ til að fylgjast með en vissum ekki alveg hverju. Á leiðinni mættum við fullt af fólki á röltinu og stór hluti þess skartaði þjóðbúningum, bæði konur og karlar. Fólk sem sagt safnaðist saman í miðbænum og hef ég aldrei séð svona mikið af fólki hér á Åsi og vorum við mikið að spá í hvaðan allt þetta fólk kæmi. Einu börnin sem við sáum voru smábörn, en það skírðist þegar að barnetoget kom.
Tvær stórar fylkingar komu úr hvorri átt með lúðrasveit í farabroti og sameinuðust í miðbænum. Allir barnaskólar og leikskólar á svæðinu tóku þátt í göngunni og voru skólar og bekkir merktir, Svavar bekkur rak lestina en 6. bekkur er elsti bekkurinn sem tekur þátt. Leikskólarnir sameinuðust svo lestinni síðar en hún endaði út við UMB (skólann minn). Þar fengu svo krakkarnir "Brus og boller" gos og bollur og hægt var að kaupa vöfflur og kaffi.
Ég fylgdi lestinni ekki alla leið, þurfti að hlaupa heim og hella upp á tvo kaffibrúsa og fara með niður í Åsgardskole skólann hans Svavars. Þórhildur kom með mér þangað, þar sáu foreldrar barna í 6. bekk um veitingar. Búið var að raða borðum og stólum um alla skólalóð og setja upp nokkra sölubása einn þar sem seldar voru pylsur annan þar sem kaffi, brus, kökur og ís var selt, ég var í "kaffegubbe" og stóð og seldi kaffi og kökur.
Ég var svo komin heim um þrjú, um klukkan fjögur fórum við svo aftur niður í bæ að fylgjast með annarri lest. Nú voru það stúdentar, félagasamtök og russarar sem gengu eða keyrðu ;o)
Þórhildur er russari en það eru þeir sem eru að klára Videregåendeskole, hún hefur ekki áhuga á að taka þátt, finnst hún ekki þekkja krakkana nóg til að hafa gaman af þessu, fylgist bara með úr fjarlægð.
Við gætum nú lært eitt og annað af norðmönnum t.a.m. var þarna blöðrusölufólk með svona týpískar gasblöðrur, en þau seldu eiginlega ekkert. Nágranni minn snéri sér að mér á meðan að við stóðum og biðum eftir göngunni og sagið mér að norðmenn vildu ekkert svona, það passaði ekki að vera selja svona drasl á þjóðhátíðardaginn.
Nýjar myndir í maímöppu
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2007 | 19:21
17. maí á morgun
Ekki seinna vænna en að setja inn fréttir af okkur. Eins og oft áður er búið að vera mikið að gera hjá mér. Ég gat einbeitt mér algjörlega að verkefanavinnu á meðan að krakkarnir voru heima. Þau komu svo út aftur 6. maí ásamt mömmu. En hún stoppaði hér í rúma viku og flaug svo í gær til Kanaríeyja og verður þar og í Marakkó næsta mánuðinn. Kolla og Raggi vinarfólk mömmu og pabba búa í Marakkó, en Raggi starfar þar, og eru þau líka með hús á Kanaríeyjum. Pabbi er að vinna í Ghana og kemur hann líklega hingað í frí um mánaðamótin júní-júlí en hann vinnur í þrjá mánuði og er í fríi þrjá. Flandur á þessu fólki
Síðastliðinn laugardag skruppum við mamma, Svavar og Óskar Óðinn, í grasagarðinn í Osló. Bebba og Sigtryggur voru að lesa fyrir próf þannig að við kipptum stubb með okkur. Þórhildur var líka að lesa þannig að hún kom ekki með. Þar var margt að sjá, kíktum á söfnin á svæðinu en þar mátti meðal annars sjá beinagrindur af risaeðlum. Í garðinum voru eplatrén, kirsiberjatrén ásamt rhododendron (lyngrósir) í fullum blóma.
Síðastliðinn sunnudag var hreinsunardagur hér á Skogveien og komu allir út með bros á vör, það var ekki vanþörf á tiltektinni. Ég fékk trjáklippur í hendurnar og missti mig algjörlega, klippti og klippti. Bebba og Sigtryggur hér við hliðina sjá nú aðeins meira en frumskóg, fengu meðal annar útsýni yfir sandkassann. Já, sandkassinn!! Það tók heilan dag að moka nýja sandinum ofan í sandkassann en það voru einhverjir snillingar sem að sturtuðu nýja sandinum við HLIÐINA á sandkassanum. Þvílíkir molbúar. Og nei, það átti ekki eftir að moka gamla sandinn úr kassanum þannig að það var ekki ástæðan.
Á morgun 17. maí er þjóðhátíðardagur norðmanna og verður mikið um að vera, við skiljum ekki alveg allt En allavega á Svavar að mæta í fyrramálið og taka þátt í skrúðgöngu sem endar við UMB (skólann minn). Ég er í kaffigrúbbu og á ég að mæta um hádegi að undirbúa kaffi, verður svo boðið upp á kaffi og með því. Það er svo ókeypis bíósýning fyrir börnin. Þetta umstang minnir mig svolítið á gamla daga og finnst mér þetta skemmtilega gamaldags og frábært að halda í svona hefðir. Fólk hér er tilbúið til að vinna og gefa vinnuna sína, hér svífur ungmennafélagsandinn yfir vötnum.
Svavar æfir fótbolta á fullu og eru drengirnir farnir að spila við önnur lið hér í kring, drengjunum er skipt upp í 4 hópa og skiptast foreldrar á að keyra þegar verið er að keppa við önnur lið. Einfalt sniðugt og skilvirkt kerfi.
Þórhildur er í endalausum prófum, skil þetta ekki alveg, en hún er dugleg stelpan. Hún ætlar að sjá um Svavar á meðan að ég skrepp til Berlínar í námsferð, en ég er að fara næsta mánudag og verð í tvær nætur. Þau spjara sig fínt systkinin, svo eru þau hér við hliðina Bebba og Sigtryggur. Jenný og Hildur Karen koma svo sama dag og ég og verða þær hér í nokkra daga, þær halda til hér hjá okkur en verða svo örugglega hingað og þangað í heimsóknum hjá vinum hér.
Alltaf gaman að fá kveðjur
1.5.2007 | 13:15
1. maí
Með réttu ætti maður að vera í kröfugöngu, veit ekki hvort að það er til siðs hér í Noregi. En í stað þess sit ég og læri eins og lög gera ráð fyrir þegar að maður er í skóla. Ákvað samt að taka mér smá hvíld og henda nokkrum línum á blað.
Sumarið er svo sannalega komið, hitastigið hefur verið svona í kringum 18-20°C yfir hádaginn og verður það sýnist mér áfram næstu vikuna. Voðalega ljúft.
Krakkarnir flugu heim síðstliðinn föstudag og eru þau búin að vera í stöðugum veislum. Áslaug Dóra dóttir Sigrúnar Lilju fermdist á sunnudaginn og var veislan haldin heima hjá ömmu Áslaugu. Í gær átti svo Einar svili minn 40 ára afmæli og var veisla hjá honum og Sigrúni Lilju í gærkvöldi. Og í dag 1. maí á svo Aldís Þóra bróðurdóttir mín 8 ára afmæli.
Guðbjörg skólasystir mín frá Hvanneyri kom í heimsókn um helgina en hún er í mastersnámi í Alnarp í Svíþjóð. Hún kom með næturrútu og var komin hingað á laugardagsmorguninn og fór hún svo í gærmorgun til baka. Við litum aðeins upp úr lærdómnum á sunnudaginn, fengum okkur bíltúr í strandbæinn Drøbak en það eru ekki nema 12 kílómetrar þangað.
Einar til hamingju með afmælið í gær.
Aldís Þóra og Brynja Dögg Hvanneyramær til hamingju með afmælið í dag.
23.4.2007 | 08:26
Gleðilegt sumar
Ætla að reyna að standa mig í stykkinu og setja inn fréttir héðan. Það er vægast sagt búið að vera brjálað að gera og verður áfram næstu vikur. Skil á stóru verkefni 8. maí í Konstruksjonsdesign, verkefnið er að hanna torg í Osló.
Hér snarkólnaði í síðustu viku eftir mjög góða helgi en þá fór hitinn í 22°C og voru allir komnir í sandala og stuttbuxur. En það er víst búið að vera kalt loft yfir norðurhveli jarðar, en það spáir hlýnandi hér næstu daga 17 - 18°C.
Föstudaginn 13. apríl hélt Jón Ottó veislu heima hjá Lísu Lottu, en Jón Ottó var hér úti ásamt Hákoni syni sínum. Jón Ottó var að verja mastersverkefnið sitt í vatna.... einhverju sem ég kann ekki að nefna, komu þeir feðgar hér út í nokkra daga. Jón Ottó er komin í vinnu hjá Orkustofnun. Við fáum svo vonandi Jenný, konu Jóns og Hildi Kareni dóttur þeirra í heimsókn í lok maí. En það var mikill missir þegar að þau fluttu heim.
Svavar fór til tannlæknis í síðustu viku, hann fór í skoðun og kom í ljós að rífa þyrfti eina barnatönn sem vildi ekki fara. Hún var rifin úr daginn eftir og gekk það eins og í sögu. Hann var ekki með eina einustu holu og var móðirinn ekki lítið ánægð með sig þegar tannlæknirinn sagði að það væri auðséð að þessi drengur borðar hollann mat :o)
Þórhildur er á fullu í prófum, á morgun fer hún í líffræðipróf og á miðvikudag í efnafræði. Hún átti reyndar að fara í efnafræðiprófið í síðustu viku en eitthvað misskildi hún kennaran þannig að hún þarf að fara í sjúkrapróf. Hún hefur fengi góða hjálp hjá Gunnu, en hún er hér í mastersnámi lífefnafræði.
Þórhildur og Svavar eru að fljúga heim næsta föstudag. En þau ætla meðal annars í fermingu hjá Áslaugu Dóru, en hún er dóttir Sigrúnar Lilju mákonu minnar, systir Begga. Þau koma svo til baka 6. maí, mamma kemur sama dag og þau en með öðru flugi, hún flýgur í gegnum Kaupmannahöfn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.4.2007 | 19:48
....4,5,6 og heim
Gaf mér ekki tíma í að uppfæra fréttir af okkur í páskafríinu. Ferðin vestur í Dale var alveg frábær, kynntumst frábæru fólki og fallegum stöðum.
Fórum í gegnum 29 göng hvorki meira né minna, og tókum 2 ferjur. Spjölluðum við norðmenn í einni ferjunni og spurðu þau okkur hvort að við værum að skoða Noreg að innan ;o) Þeim fannst skrítið að sjá bíl á íslenskum númerum á ferðinni hér.
Fórum í bíltúra, göngutúra og kíktum á Ingólf Arnarson (sjá myndir), en hann var dæmdur í útlegð frá þeim stað er styttan af honum stendur á fyrir að drepa tvo syni Atla Jarls. Vantaði bara Boga og Örvar undir styttuna ;o) Borðuðum veislumat öll kvöld í góðum félagsskap. Skelltum okkur svo á ball í Dale, þar var svipuð stemming og að fara á ball út á landi heima á klakanum.
Eins og lög gera ráð fyrir lentum við í páskahretti og var fljúgandi hálka alla leiðina heim, en við keyrðum varlega og vorum einar 11 klst. á leiðinni sem annars tekur um 9 klst. að keyra, en kílómetrarnir voru ekki nema 560. Þegar maður spyr norðmenn hversu margir kílómetrar eru á milli staða hér er manni alltaf svarað í klukkustundum. Er hætt að kvarta yfir íslenska vegakerfinu.
Myndir úr ferðalaginu komnar inn :o)
4.4.2007 | 18:57
Dagur 2 og 3
Vöknuðum úthvíld í faðmi hárra fjalla, fórum og gengum um Lærdalsøyre í frábæru veðri, það var svolítið kaldara en heima á Åsi. Fengu okkur göngutúr um bæinn og spjölluðum við heimamenn. Í stórum hluta af bæarins sést ekki til sólar í 6 til 7 mánuði. Hér á árum áður var Lærdal einangraður og var okkur sagt að mállískan sem töluð er af fullorðna fólkinu komi einna næst íslenskunni af þeim málískum sem talaðar eru í Noregi, en þær eru jú, ansi margir.
Við keyrðum svo frá Lærdal um E5, beint inn í göng út aftur og um borð í ferju sem er hluti af E5, hún gengur á milli Fodnes og Mannheller. Keyrðum gegnum nokkra smábæi, þar á meðal smábæ sem heitir Mundal, en hann gengur líka undir nafninu bókabærinn. En þar eru víst öll hús full af bókum, en það var allstaðar lokað, ekki enþá komið fram á ferðamannatímann :o( Leið okkar lá meðal annars inn á milli jökla og inn á E39 meðfram Jølstravatni til Frøde.
Við hittum svo Elísabetu gestgjafann okkar þar, en Frøde er 15 þúsund manna bær ekki langt frá Dale. Þar versluðum við og vorum svo í samfloti með Elísabet til Dale, en það var mikil upplifun að keyra síðasta spotann. Flottir fossar, hrikaleg fjöll og órtúlegir einbreiðir vegir utan í bröttum hlíðum.
De Nordic Artists Center þar sem að hún Elísabeta á heima gnæfir yfir bænum og þaðan er alveg magnað útsýni yfir fjörðinn. Við búum svo í svokölluðum kofa en hann er 200 fermetra stór með öllum nútímaþægindum, þannig að það er lítið kofalegt við kofann ;o)
Borðuðum svo kvöldmat hjá Elísabetu og hittum Einar son hennar en hann er jafngamall Svavari og Benedikt, hún á líka 15 ára strák sem heitir Jón Kolbeinn en hann var ekki heima þegar að við komum. Foreldara hennar eru líka í heimsókn hér en þau eru frá Ísafirði og heita Gunnar og Jónína kölluð Lilla.
Dagur 3
Það var afslöppunardagur í dag, fórum reyndar í búðir til að kaupa inn það sem upp á vantaði. Sigga og Smári bætust svo í hópinn í dag, en þau eru líka Ísfirðinar. Sigga er í dýralæknanámi í Osló.
Það var lágskýað og rigningardropar annað slagið, en annars voða milt og gott veður, vonum bara að það létti.
Kv. Oddný
P.s. Takk fyrir allar kveðjurnar.
2.4.2007 | 20:57
Ferðalagið, dagur 1
Feðalangar eru ég, Þórhildur, Svavar, Lilja og Benedikt.
Við lögðum af stað frá Åsi um hádegi í dag áleiðis til Dale við Sunnefjord. Komum við í Osló og keyptum línuskauta á Svavar og var líka keyptur íþróttagalli á Benedikt, en hann á 12 ára afmæli á morgun strákurinn. Það tók smá tíma að komast aftur út úr traffíkinni í Osló, en við vorum að flækjast í miðbænum ;o)
Keyrðum eftir E16 í átt að Hønefoss og tókum síðan E7 upp í gegnum Noresund, kíktum aðeins á hús íslendingafélagsins þar. Héldum svo áleiðis í gegnum Gol, þar stoppuðum við og skoðuðum stafkirkju og miðaldargarð, Gol er greinilega vinsæll túristabær enda stutt í frábær skíðasvæði. Frá Gol héldum við áfram E52 og keyrðum upp fyrir skóglínu, og var þó nokkuð mikill snjór þarna upp frá, smá skafrenningur á veginum. Komum aftur inn á E16 u.þ.b. 30 kílómetra frá Lærdal og er alveg með ólíkindum að þetta skuli vera leiðin á milli Osló og Bergen, minnti mig einna helst á að keyra inn í Hallormstaðarskógi, hætti hér með að kvarta yfir hlykkjótum vegum heima. Landslagið er alveg magðað en Lærdaløyre bærinn sem að við gistum í er innst í Sognafirði. Við erum í þeim hluta af bænum sem kallast gamli bærinn og er húsið sem við gistum í byggt 1840, hér er linkur inn á gistiheimilið http://www.sandenpensjonat.no/ . Á Lærdalsøyre búa um 2000 manns. Á morgun þurfum við að taka ferju yfir Sognafjörð og eigum við líklega eftir að upplifa enþá magnaðra landslag á morgun. Komust vonandi í netsamband annað kvöld til að segja frá ferðalaginu til Dale.
Góða nótt, kveðja Oddný
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.4.2007 kl. 07:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)